Þingeyri, 20. september 2018
Arnar Sigurðsson
(arnar@blabankinn.is)Blábankinn

Skýrsla eftir eins árs starf

Blábankinn er tilraunaverkefni og því er mikilvægt að deila bæði árangri og áskorunum til þess að fleiri geta lært af ferlinu. Blábankinn er þróunarmiðstöð á Þingeyri þar sem íbúar eru um 250. Hann er samstarf bæði einkaðila og opinberra aðila. Við hann er eitt stöðugildi sem deilt er með tveimur starfsmönnum.

Á fyrstu 12 mánuðunum hafa ...


70 skapandi einstaklingar unnið 900 daga.
87 viðburðir verið haldnir með 1300 þátttakendum.
Samstarf verið átt um 8 þróunarverkefni.
5 samningar gerðir um þjónustu við Þingeyringa.


Frumkvöðlasetur

Það segir sína sögu um atvinnulíf á Þingeyri að þegar Blábankinn tók til starfa vann enginn íbúa þar dæmigert skrifstofustarf. Blábankinn opnaði samvinnurými (co-working space) með ljósleiðaratengingu og sveigjanlegt skrifstofurými. Unnið var markvisst að því að laða að frumkvöðla, einyrkja og skapandi fólk. Blábankinn stendur m.a. fyrir nýsköpunarhraðli, samstarfi við gestavinnustofur listamanna o.s.frv.

Á fyrstu 12 mánuðum verkefnisins nýttu um 70 manns frumkvöðlasetrið, og unnu þar 900 vinnudaga (utan þeirra sem unnir voru fyrir Blábankann beint). Margir af þeim sem komu og dvöldu á Þingeyri tóku virkan þátt í samfélaginu, héldu m.a. fyrirlestra og tóku þátt í hugmyndavinnu um þróun á svæðinu. Við teljum að þetta sé og hafi burði til að vera árangursrík fjárfesting í því að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, og með tímanum skapandi vistkerfi á staðnum. Meðal notenda voru forritarar og tæknifólk, fræðifólk, frumkvöðlar og listafólk.

Fræðimenn frá háskólanum í Agder í Noregi vinna að tölfræðigreiningu í samvinnurými Blábankans.


Þjónustumiðstöð

Eitt af markmiðum Blábankans er að bæta þjónustu opinberra og einkaaðila á Þingeyri. Blábankinn hýsir, og starfsmenn Blábankans hans sjá í sumum tilfellum um, þjónustu á vegum 7 aðila.


Landsbankinn

Húsnæði Blábankans var áður nýtt fyrir þjónustu Landabankans og ein af rótum hans er ákvörðun bankans að loka útibúinu á Þingeyri. Í samstarfi við Landsbankann skipuleggur Blábankinn opnun tvisvar í viku, eina klst í senn. Um 1.000 afgreiðslur hafa verið framkvæmdar á fyrstu 12 mánuðum.

VerkVest

Blábankinn samdi um afnot af húsnæði Verkalýðsfélags Vestfirðinga, í sömu byggingu. Blábankinn sinnir í staðin þjónustu við félagið og félagsmenn, og veitir því meiri sýnileika á Þingeyri.

Snerpa

Vestfirska tæknifyrirtækið Snerpa hefur viðveru og vinnustöð fyrir einn starfsmann einusinni í viku í Blábankanum.

Arnhildur Lilý Karlsdóttir veitir þjónustu í Blábankanum.
Bókasafn

Blábankinn býður íbúum Þingeyrar að panta og skila bókum sem svo eru sendar frá bókasafni Ísafjarðar. Einnig býður hann brot af fyrrum bókasafni Þingeyrar til afnota. Þjónustan hófst í nóvember 2017, og hefur verið nýtt 33 sinnum.

Tölvuaðstoð

Blábankinn býður ókeypis aðstoð við tölvunotkun tvisvar í viku, og stundum eftir pöntun. Markmiðið er að styðja íbúa við að nýta sér rafræna þjónustu sem verður sífellt veigameiri. Þjónustan hefur verið veitt 40 sinnum á fyrstu 12 mánuðum.

Ísafjarðarbær

Blábankinn veitir Ísafjarðarbæ ýmsa þjónustu samkvæmt samningi, bæði til bæjarins og gagnvart íbúum Þingeyrar. Þá styður Blábankinn við íbúasamtök Þingeyrar. Misjafnt er hversu mikið þessi formlega þjónusta hefur verið nýtt af bænum og íbúum. Mest hefur farið fyrir stuðningi við íbúasamtök, en Blábankinn aðstoðar við skipulag og samskipti, og hefur að beiðni íbúasamtaka tekið virkan þátt í verkefninu Brothættum byggðum.

Blábankinn tekur þátt í ýmsum málum sem heyra undir sveitarfélög, s.s. menningar-, tómstundar-, skipulags- og byggðarmálum eins og þau snúa við Þingeyri.

Vestfjarðarstofa

Starfsmaður verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar (Brothættar byggðir) hefur aðsetur í Blábankanum.Nýsköpun og samfélagsþróun

Blábankinn tekur þátt í 8 þróunar- og nýsköpunarverkefnum, í sumum er hann megin drifkraftur og í öðrum stuðningsaðili. Þá hefur hann á fyrstu 12 mánuðum 20 sinnum veitt minniháttar hjálp við atvinnuþróun, s.s. við umsóknargerð og markaðssetningu.

Dæmi um verkefni:

Nýsköpunarhraðall
Verkefnið snýst um að að bjóða frumkvöðlum að dvelja á Þingeyri og vinna að nýsköpunarverkefnum sínum í Blábankanum. Stutt af uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
Skapandi fólksfækkun
Í samvinnu við Westfjords Residency, Yasuaki Tanago og fleiri. Verkefnið miðar að því að læra af reynslu heimamanna í Kamiyama í Japan við að snúa vörn í sókn í byggðamálum.
Samstarf ferðaþjónustuaðila
Blábankinn tekur þátt í að samhæfa og samstilla starf ferðaþjónustaðila á Þingeyri sem m.a. hefur leitt af sér kynningarefni sem er væntanlegt sumarið 2019.
Deili-far
Í samstarfi við norskt nýsköpunarfyrirtæki undirbýr Blábankinn tilraun til að nýta deilihagkerfið til þess að bæta samgöngur í dreyfðari byggðum.
Öll vötn til Dýrafjarðar
Blábankinn á sæti í stjórn og tekur virkan þátt í byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir.
Weird Girls fara vestur
Í samvinnu við listakonuna Kitty Von-Sometime styður Blábankinn við gerð á kvikmynduðum listagjörning til að efla samstöðu og sjálfstraust meðal kvenna.


Viðburðir

Í Blábankanum og/eða á vegum hans voru á fyrstu 12 mánuðum haldnir 87 viðburðir með samtals um 1300 þátttakendum.

Menningardagskrá á aðventustund.
Námskeið í skapandi skrifum á vegum Hversdagssafnsins.
Námskeið á vegum fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish.
Kökuskreytingarkeppni fyrir yngri kynslóðina.
Fyrirlestrar um heimskautarefinn.
Vinnustofa í Enneagram sjálfsþekkingu.
Kynning á þrívíddarprentun á vegum FabLab Ísafirði.
Áhorf á HM í knattspyrnu 2018.


Ímynda- og kynningarstarf

Stórt hlutfall þeirra frétta sem fluttar hafa verið undanfarin ár frá Þingeyri í miðlum á landsvísu hafa flutt fréttir af neikvæðum atburðum eða þróun. Eitt af markmiðum Blábankans er að byggja upp ímynd hans, og á sama tíma Þingeyrar.

"In the small town of Þingeyri, in the Westfjords of Iceland, something very exciting is brewing"

Reykjavik Grapevine

„Fluttu vestur til að starfa við framúrstefnulegan banka á Þingeyri“

Visir.is

Útgáfa og miðlun

Blábankinn stendur fyrir öflugri kynningar- og ímyndastarfsemi á samfélagsmiðlum með facebook síðu, umræðugrúppu, Instagram og vefsíðu, og birt reglulega greinar, fréttir og annað efni frá Þingeyri og starfinu sem hefur vakið athygli. Þá hefur Blábankinn tekið að sér umsjón með fréttavefnum thingeyri.is.

Umfjöllun á landsvísu

Á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar voru birtar 10 greinar eða þættir í sjónvarpi, blöðum og útvarpi á landsvísu um Blábankann eða verkefni hans, auk fjölda greina í staðbundnum miðlum á Vestfjörðum. Flestar þeirra lögðu áherslu á samfélagslega uppbyggingu, nýsköpun og möguleika framtíðar.Ávinningar og áskoranir

Nýtt vistkerfi

Með því að vera áfangastaður fyrir frumkvöðla, skapandi fólk og listamenn hefur Blábankinn skapað vísi að vistkerfi byggðu á hugviti og sköpun, sem hefur möguleika á að bæta nýrri vídd í atvinnulíf og samfélagið á Þingeyri. Það getur til lengri tíma skapað fjölbreyttari tækifæri á staðnum.

Skortur á ungu fólki og einhæft atvinnulíf sem fyrir er gerir þetta að langtíma verkefni, og gerir að verkum að Blábankinn þarf að laða til sín fólk allstaðar að. Ótryggar samgöngur, sérstaklega að vetri til, og mikill kostnaður við ferðalög innan Íslands hjálpar ekki.

Staðbundin stofnun

Á undanförnum árum hafa nær svo gott sem allar stofnanir sem áður voru kjölfesta samfélagsins á Þingeyri yfirgefið þorpið. Nær allar ákvarðanir er varða samfélag og atvinnulíf á Þingeyri eru teknar utan byggðarlagsins. Stærstu fyrirtækjunum er stjórnað annarstaðar og svo gott sem öll stjórnsýsla á sér stað annarstaðar. Þetta hefur neikvæð áhrif á frumkvæði, hæfni og tengsl samfélagsins til að móta sín eigin örlög útfrá eigin sérstöðu og aðstæðum. Blábankinn hefur reynt að vinna gegn þessu með því að ýta undir og taka frumkvæði í málum er varða íbúa.

Þjónusta í heimabyggð

Blábankinn hefur eftir bestu getu reynt að vinna með aðilum til að þjónusta sé veitt í heimabyggð. Þetta eykur virknina í samfélaginu sem hefur áhrif, umfram þann tíma sem sparast íbúunum að þurfa að keyra til Ísafjarðar eða Reykjavíkur. Á sama tíma vinnur Blábankinn að því að reyna að nýta sér þau tækifæri sem felast í aukinni rafvæðingu þjónustu fyrir dreyfðari byggðir og horfir til framtíðar í þeim efnum.

Ímynd tækifæra

Markviss ímyndasköpun og jákvætt umtal sem Blábankinn reynir að skapa eykur vonandi áfram áhuga á Þingeyri og líkurnar á því að fleiri vilji setjast þar að og leita tækifæra þar, sérstaklega meðal ungs fólks.

Fjármögnun

Blábankinn reynir eftir fremsta megni að skapa tekjur út frá eigin verkefnum. Hann nýtur stuðnings frá Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu, sem er stærsti fjárhagslegi bakhjarl verkefnisins. Þá Blábankinn hann gert þjónustusamninga, hlotið verkefnastyrki, og fengið stofnfé og styrki frá einkaðilum.

Opinber stuðningur við verkefnið stendur þó ekki undir heilu starfsgildi til lengri tíma, og eðli verkefnisins og aðstæðna á Þingeyri eru þær að mjög ólíklegt er að reksturinn standi undir sjálfum sér óstuddur fyrstu árin. Það verður því töluverð áskorun að tryggja áframhaldandi rekstur starfseminnar.Aðilar

Stofnendur


Vestinvest
Ísafjarðarbær
Simbahöllin

Samstarfsaðilar


Samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Landsbankinn
Verk Vest

Bakhjarlar


Arctic Fish (platína)
Snerpa (silfur)
PricewaterhouseCoopers (brons)
Pálmar Kristmundsson (brons)


Nánari upplýsingar: info@blabankinn.is